Golfreglur fyrir byrjendur

Golf.is

Golfreglurnar eru á golf.is. Reglurnar eru 24 talsins og hver regla er í nokkrum liðum. Þar að auki eru skilgreiningar. Það er óþarfi fyrir byrjendur að sökkva sér ofan í reglurnar, en þó mikilvægt að kunna helstu reglur. Þekking á reglunum getur sparað högg.

Hámark 14 kylfur

Þú mátt ekki byrja umferð (hring) með fleiri en 14 kylfum, eða hafa fleiri en 14 kylfur á meðan umferðin er leikin (regla 4.1b). Ef þú byrjar umferð með færri en 14 kylfum máttu bæta við kylfum á meðan á umferðinni stendur, upp að 14 kylfu hámarkinu.

Svæði vallarins

Teigur: Svæðið þaðan sem leikmaðurinn verður að leika til að hefja leik á holunni sem hann er að leika. Teigurinn er ferhyrnt svæði sem er tveggja kylfulengda djúpt og að framan afmarkast svæðið af línunni á milli fremstu brúna tveggja teigmerkja.
Vítasvæði: Svæði þar sem lausn er heimil gegn einu vítahöggi ef bolti leikmannsins hafnar þar.
Glompa („bönker“): Sérgert svæði úr sandi.
Flöt: Svæði á holunni sem leikmaður er að leika, sem er sérstaklega útbúið fyrir pútt.

Passið að slá réttan bolta

Það er auðvelt að ruglast á boltum. Ef maður slær rangan bolta þá fær maður tvö vítahögg sem bætast við. Mikilvægt er að merkja bolta með túss þannig að hægt sé að greina á milli. Sumir setja upphafsstafi, aðrir punkta eða strik.

Flötin

Flatir eru sérstaklega gerðar til að leika boltanum eftir jörðinni og einnig er flaggstöng í holunni á hverri flöt. Því gilda nokkrar sérreglur um flatir, frábrugðnar reglum fyrir aðra hluta vallarins. Þú mátt gera hluti á flötinni sem eru venjulega ekki leyfðir utan flatarinnar, svo sem að merkja staðsetningu bolta þíns, lyfta honum, hreinsa hann og leggja hann aftur, lagfæra boltaför (og fleiri skemmdir) og fjarlægja sand og lausan jarðveg af flötinni. Þá er vítalaust þótt þú hreyfir bolta eða boltamerki fyrir slysni á flötinni.

Boltanum leikið þar sem hann liggur

Spilaðu boltanum alltaf þaðan sem hann liggur nema reglurnar leyfir þér annað. Ef bolti þinn stöðvast og er síðan hreyfður úr stað af náttúruöflunum, svo sem vindi eða vatni, verður þú yfirleitt að leika boltanum frá nýja staðnum. Ef kyrrstæðum bolta þínum er lyft eða hann hreyfður af einhverjum, eða af utanaðkomandi áhrifum, áður en höggið er slegið, verður að leggja boltann aftur á upphaflegan stað. Þú ættir að fara varlega nærri kyrrstæðum bolta og ef þú veldur því að bolti þinn eða mótherja þíns hreyfist færðu yfirleitt víti (nema á flötinni).

Bolti týndur eða útaf

Bolti þinn er týndur ef hann hefur ekki fundist innan þriggja mínútna frá því að þú eða kylfuberi þinn hófuð leit að honum. Bolti er út af ef hann lendir utan vallarmarka (utan girðingar á Hlíðarenda). Ef bolti þinn er týndur eða út af verður þú að taka fjarlægðarlausn með því að bæta við einu vítahöggi og leika bolta þaðan sem þú slóst síðasta högg. Ef bolti þinn kann að vera týndur utan vítasvæðis eða út af máttu flýta fyrir með því að leika öðrum bolta til vara, með fjarlægðarlausn gegn víti. Hins vegar, ef þú ert meðvitaður um að eini staðurinn þar sem upphaflegi boltinn kann að vera týndur er innan vítasvæðis er varabolti ekki leyfður.

Vítasvæði

Vítasvæði eru vatnasvæði eða önnur svæði skilgreind af nefndinni, þar sem boltar týnast oft eða eru ósláanlegir. Gegn einu vítahöggi máttu nota sérstakar lausnaraðferðir til að leika bolta utan vítasvæðisins. Vítasvæði geta verið gul eða rauð og eru merkt með línum eða hælum.

Nokkur praktísk atriði

Við notum Golfbox appið til að skrá rástíma eða til að skrá okkur í mót. Einnig er hægt að gera þetta á golf.is. Karen í golfskálanum aðstoðar ykkur ef þið lendið í vandræðum með appið.

Rástími er tíminn þegar fyrsta högg er slegið. Mætið tímanlega á völlinn til að vera tilbúin þegar að ykkur kemur. Það á enginn að stressa sig á vellinum en það er gott að temja sér ákveðna hluti eins og að ganga rösklega milli högga og frá flöt yfir á næsta teig og staðsetja kerru teigmegin við flöt áður en púttað er.

Par vallar og forgjöf

Par vallar og forgjöf Par vallar er höggafjöldi sem fæst með því að leggja pör brautanna saman. Það gerir 36 högg fyrir 9 holur á Hlíðarendavelli, 72 högg fyrir 18 holur. Kylfingur sem getur leikið allr brautir á pari er með forgjöf núll. Kylfingur sem leikur (að jafnaði) 18 brautir á einu yfir pari er með forgjöf 18, kylfingur sem leikur á tveimur yfir pari er með 36 og loks er kylfingur sem leikur á þremur yfir pari með 54 í forgjöf. Byrjendur byrja með 54 í forgjöf og lækka sig svo smám saman niður. Golfbox heldur utan um forgjöfina. Forgjöfin gerir það að verkum að forgjafarhár kylfingur getur keppt við forgjafarlágan kylfing í punktakeppni. Sem þumalputtareglu má hafa (einfaldað):

Kylfingur með 0 í forgjöf fær 2 punkta fyrir að leika par 4 holu fyrir að leika á 4 höggum.
Kylfingur með 18 í forgjöf fær 2 punkta fyrir að leika par 4 holu á 5 höggum.
Kylfingur með 36 í forgjöf fær 2 punkta fyrir að leika par 4 holu á 6 höggum.
Kylfingur með 54 í forgjöf fær 2 punkta fyrir að leika hana á 7 höggum (4+3).
Punktunum fjölgar ef höggin eru færri.